Hvað felst í því að biðjast fyrirgefningar og hvenær ættum við að biðjast fyrirgefningar? Hvernig eigum við að biðjast fyrirgefningar?

Orðið fyrirgefning virðist þýða uppgjöf saka, sem í raun tónar við það að með því að fyrirgefa eitthvað sem hefur verið gert á minn hlut er ég að láta af gremju, biturleika og reiði gagnvart því sem gerðist en ég fæ það ekki til að tóna við það að með því að fyrirgefa sé ég ekki að viðurkenna eða leggja blessun mína á það sem á undan hafði gengið. Ef ég gef einhverjum upp sakir er ég þá ekki að seigja hann saklausan? Getur verði að beinþýðing orðsins sé önnur en trúarleg eða samfélagsleg þýðing þess?

Orðið fyrirgefning, það að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar hefur orðið mörgum fræðimönnum tilefni til margrar lærðra greina og ritgerða, það er meira að seigja til stofnun um fyrirgefningu hvað þá meira. Ég ætla að hugleiða um fyrirgefningarbeiðni út frá mínum skilningi og mínum tilfinningum og reynslu frekar en að gera tilraun til að vera of fræðileg á þann hátt að hægt sé að vitna í það sem ég skrifa…

Að biðjast fyrirgefningar, það virðist vera eitthvað við það að biðjast fyrirgefningar sem er svakalega erfitt og sumum nánast ómögulegt. Ég persónulega á ekki erfitt með það og hef oft sagt að mér finnist ekkert mál að biðjast fyrirgefningar þegar þess gerist þörf en mér finnst hins vegar meira mál að á undan fyrirgefningarbeiðninni geri ég alltaf eitthvað sem verðskuldar það að ég biðjist fyrirgefningar. Undanfari fyrirgefningarbeiðnar er alltaf sá að ég hef gert eitthvað rangt eða eitthvað á hlut einhvers sem ég sé eftir og iðrast…

Getur verið að mörgum þyki erfitt og nánast ómögulegt að biðjast fyrirgefningar vegna þess að með því þá eru þeir að viðurkenna að hafa gert rangt? Getur verið að þeim finnist að ef þeir biðjist fyrirgefningar séu þeir minni manneskjur fyrir vikið eða veikari?

Um daginn gerðist það að mér fannst mér nákominn bregðast mér harkalega, honum fannst það líka og endaði það sem hann hafði að seigja með orðinu “fyrirgefðu”. Ég brást hin versta við og lét hann vita að hann hefði ekki rétt á því að seigja þetta orð við mig þar sem hann vissi hvað hann væri að bregðast mér og ætlaði að standa við fyrirætlanir sínar og hann gerði það…

Þarna fannst mér hann ekki hafa rétt á því að biðja mig um að fyrirgefa sér þar sem hann vissi hvað hann væri að gera og vissi að það kæmi sér illa fyrir mig. Í reiði minni og sárindum sá ég ekki að hann bar fram fyrirgefningarbeiðnina fullur iðrunar, eftirsjár og sjálfsásakana vitandi að hann gæti ekki verið mér það sem ég ætlaði honum, ég heyrði bara orðin sem hann sagði en ekki hvernig hann sagði þau, ég heyrði ekki á þessari stundu að hann sá verulega eftir því hvernig væri komið fyrir okkur og veit núna að hann hefði gefið margt merkilegra en annað til þess að hlutirnir væru á annan veg en þeir voru. Hver var ég að ákveða og dæma að hann hefði ekki rétt á því að biðjast fyrirgefningar bara vegna þess að það hentaði mér ekki á þessari stundu…

Það skiptir máli hvernig þú biðst fyrirgefningar, það skiptir öllu máli hvernig þú ferð að því að biðjast fyrirgefningar…

Mér finnst að þegar ég fer og biðst fyrirgefningar á einhverju sem ég hef gert á hlut einhvers þá verða nokkur atriði að vera til staðar…

# Ég sé eftir því sem ég gerði.
# Ég viðurkenni að ég hafi gert rangt og ber ábyrgð á því.
# Ég vil að þú vitir að ég sjái eftir því hvað ég gerði og að ég viti að ég hafi haft rangt fyrir mér.
# Ég vil bæta fyrir það sem ég gerði ef ég mögulega get.
# Ég kem til með að gera mitt besta til að þetta gerist ekki aftur.

Hvernig fer ég að því að biðjast fyrirgefningar?
Ég sá einhvers staðar haft eftir mér vitrari manneskju að fyrirgefningarbeiðni ætti ekki að bera fram með afsökun fyrir hegðun eða gjörðunum sem urðu til þess að það varð ástæða fyrir því að biðjast fyrirgefningar. Réttmæt orð því ef ég kæmi til þín og segði við þig “viltu fyrirgefa mér hvað ég var leiðinleg og snubbótt við þig í gær en þú varst bara svo fjandi leiðinlegur” þá er ekki mikið varið í þá fyrirgefningarbeiðni. Líkurnar á því að þú fyrirgæfir mér eru ekki miklar og að öllum líkindum hef ég sært þig enn meira en áður. Hvað þú varst leiðinlegur getur verið útskýring á því hvernig ég hagaði mér en enganvegin afsökun fyrir hegðun minni…

Fyrirgefningarbeiðni finnst mér eiga að bera fram án afsökunar og með iðrun og eftirsjá, ég er að seigja þér að mér þyki leiðinlegt hvernig ég kom fram við þig og þarf ekki að afsaka mig eða útskýra afhverju vegna þess að ég ber ábyrgð á minni hegðun, mínum viðbrögðum en ekki þú…

Hvers á að vænta eftir fyrirgefningarbeiðni?
Ég er enn ekki búin að ákveða hvort mér finnist það ósanngjarnt eða ekki en þegar ég er búin að biðjast fyrirgefningar og lýsa yfir iðrun og eftirsjá þá er ég í raun búin að gera það sem ég get til að gera hlutina betri hjá þeim sem ég hef gert rangt gagnvart og það er ekki á mínum höndum hvað manneskjan gerir við það. Í rauninni er ég bæði búin að létta af minni samvisku og um leið kasta ábyrgðinni yfir á þann sem ég gerði rangt gagnvart, hvað hann gerir við þetta er ekki eitthvað sem ég get stjórnað eða á að stjórna. Það eina sem ég get gert eftir að hafa beðist fyrirgefningar er að gefa þeim sem ég gerði rangt gagnvart tíma til að skoða hlutina og ákveða fyrir sig hvað hann ætlar að gera í þeim…

Að geta beðist fyrirgefningar er ekki merki um veikleika eða að þú sért minni manneskja fyrir vikið að mínu mati, mér finnst sá sem getur viðurkennt að hann hafi haft rangt fyrir sér eða hafi gert rangt og sýni vilja til að breyta, bæta og laga það mörgum mönnum meiri…

Ef ég ætla að vera besta mögulega útgáfan af sjálfri mér þá geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér eða geri alltaf rétt gagnvart öðrum en ég ætla að gera mitt besta og stundum er það besta sem ég get gert eftir glappaskot og kjánaskap að viðurkenna það og sýna vilja til að breyta, bæta og laga, ekki bara þeirra vegna sem hafa orðið fyrir glappaskotunum og kjánaskapnum af minni hendi heldur einnig sjálfrar mín vegna…

Það getur verið að fyrir þá sem ég hef komið illa við sé það besta sem gerist að ég viðurkenni mitt og biðjist fyrirgefningar, er það of mikils til ætlast?