Fyrirgefning, orð sem við heyrum svo oft en leiðum sjaldnast huga að því hvað það þýðir, hvað felst í því að fyrirgefa og afhverju ættum við að fyrirgefa? Hvað felst í því að biðjast fyrirgefningar og hvenær ættum við að biðjast fyrirgefningar?

Við lærum það snemma sem krakkar að þegar við höfum gert eitthvað rangt þá eigum við að biðjast fyrirgefningar, seigja “fyrirgefðu” við þann sem við gerðum rangt gagnvart og þá verður allt gott aftur. Okkur er líka kennt að þegar einhver gerir eitthvað á okkar hlut og kemur til okkar og seigir “fyrirgefðu” við okkur þá eigum við að fyrirgefa það sem var gert og allt verður gott aftur, þetta er því miður ekki svona einfalt þegar við erum orðin stór…

Ég er búin að vera að eiga við leiðindar atvik sem kom upp án þess að ég bæði um eða sóttist eftir, stundum gerast vondir hlutir án þess að ég fái mikið við ráðið og í hita augnabliksins gerist það stundum að fólk bregst rangt við. Bæði ég sjálf og fólkið sem stendur í kring um mig, við erum jú bara mannleg og þegar mikið liggur við á miklum hraða er erfitt að gera sér grein fyrir stöðunni og bregðast alltaf rétt við. Afleiðingar þessa atviks hafa verið vægast sagt svakalegar, erfiðast hefur verið að eiga við tilfinningalegar afleiðingar þess en þar hefur mér fundist þeir sem standa mér nærst hafa brugðist mér svakalega og það hefur verið mér verulega erfitt og ég hef setið sorry, svekkt og verulega sár yfir því…

Núna þegar allt virðist fallið í ljúfa löð hef ég haft tíma til að skoða hlutina í raunsærra ljósi en áður og þá sé ég að það er ekki allt eins og mér fannst í fyrstu. Jú, ég ætla ekki að gera lítið úr því að á vissan hátt var það svo að þeir sem stóðu mér nærst hafa ekki staðið sig eins og ég hefði viljað og svo sannarlega ekki eins og þau vildu en hvaða væntingar gerði ég? Getur verið að ég hafi gert of miklar væntingar til þeirra, getur verið að ég hafi staðið og ætlast til of mikils? Getur ekki verið að vegna þess að ég ætlaðist til of mikils að þess vegna hafi ég orðið svona sorry, svekkt og sár?

Hvernig hætti ég að vera sorry, svekkt og sár?

Með því að fyrirgefa, en hvernig fer ég að því og hvað þýðir það?

Eftir því sem ég kemst næst þá þýðir það að fyrirgefa að láta af gremju, biturleika og reiði gagnvart þeim sem ég tel að hafi gert eitthvað á hlut minn, þeim sem ég tel að hafi ekki staðið sig gangvart mér eða gagnvart atburði sem ég á erfitt með að hafi gerst. Ég er nú ekki vitlausari en svo að ég geri mér fulla grein fyrir því að gremja, biturleiki og reiði er eitthvað sem eykur ekki á lífsgæði mín að burðast með og ég vil ekki bera þessi frændsystkyni með mér hvert sem ég fer. En hvernig læt ég af gremju, biturleika og reiði, hvernig sleppi ég þeim á þann hátt að þau hafi ekki áhrif á daglegt líf mitt?

Hvað gerist ef ég sleppi gremjunni, biturleikanum og reiðinni? Er ég þá ekki búin að samþykkja það sem gerðist, veita viðurkenningu á því að allt sé í himnalagi og hafi engar afleiðingar á einn eða neinn hátt?

Fyrirgefning er ekki samþykki á því sem átti sér stað, þó ég fyrirgefi þá er ég ekki heldur að gleyma því sem gerðist. Það er ekki samasem merki á milli þess að fyrirgefa og eða sætta sig við hlutina og fyrirgefningu fylgir heldur ekki minnisleysi. Fyrirgefning er leið til að sleppa, láta af óþæginlegum og vondum tilfinningum sem við burðumst með eftir það sem gerðist og leið til að halda áfram með lífið á jákvæðari og betri hátt…

Ég var búin eins og áður seigir að sitja sorry, svekkt og sár, upptekin af því hvað mér hafði fundist hafa verið gert á minn hlut og það hafði haft verulega áhrif á daglega líðan mína og líf því ég hafði verið að finna fyrir þessu á hverjum degi. Þetta hafði haft áhrif á hegðun mína gagnvart öðrum og virtist hafa eitrað mun meira en ég gerði mér grein fyrir í kring um mig, jafnvel til þeirra sem áttu ekki skilið að finna fyrir því hvernig mér leið gagnvart þessu, þeirra sem komu hvergi nálægt þessu á einn eða neinn hátt. Lífð mitt virtist gegnsýrt af gremju, biturleika og reiði gagnvart þessu og var farið að éta upp meira en minna. Það stefndi í veruleg óefni og ég sá fyrir mér að ég yrði gömul bitur kona með mött augu og eftirsjá, ekki alveg það sem ég ætla mér þegar ég verð stór…

Hvernig átti ég að bregðast við þessu, hvernig átti ég að sleppa þessum vondu tilfinningum sem gegnsýrðu lífið mitt og finna aftur fyrir því hvað það er gott og gaman að vera ég?

Með því að sleppa, hætta að ríghalda í sársauka þess sem hafði gerst og fyrirgefa, ég gæti hvort eð er ekki breytt fortíðinni með gremju, biturleika eða reiði en ég get stjórnað því hvernig mér ætlar að líða í framtíðinni, ég sá að það eina sem ég gat gert var að fyrirgefa, sleppa vondu tilfinningunum til þess að hleypa jákvæðari tilfinningum að…

Ég er búin að fyrirgefa þeim sem stóðu mér nærst í þessum atburðum sem ég talaði um að ofan, ég er búin að sleppa gremjunni, biturleikanum og reiðinni og farin að finna aftur fyrir því hvað er gott og gaman að vera ég. Ég er búin að finna það sem ég laggði til hliðar af sjálfri mér til að halda í gremju, biturleika og reiði og það er ótrúlega gott. Það var ekki auðvelt, svo sannarlega ekki en það var heldur ekki eins erfitt og ég átti von á. Fyrirgefning er ferli, ég tók ákvörðun um að fyrirgefa og leitaði leiða til þess að mér tækist það…

Þetta er leiðin sem ég fór:

# Ég skoðaði hvað það var sem gerðist, hvað ég gerði, hvað þeir sem mér fannst hafa gert á hlut minn gerðu og hvernig það hefði haft áhrif á lífið mitt og líðan. Ákvað út frá þeirri skoðun að ég ætla ekki að vera gröm, bitur eða reið að eilífu amen vegna þessa, ætlaði ekki að láta þetta ekki skemma fyrir mér eða hafa neikvæð áhrif á daglegt líf mitt það sem eftir er.

# Ég sá að líðan mín stafaði meira af því að ég var sorry, svekkt og sár en því sem gerðist, líðan mín var tilkomin vegna særðra tilfinninga meira en þeirra atburða sem áttu sér stað og með þá vitneskju settist ég niður og skoðaði hvað það var sem olli því að það gerðist.

# Ég gerði mér grein fyrir því að í þessu tilfelli hafði ég greinilega gert mér of miklar væntingar til þeirra sem stóðu mér nærst, ég stjórna því ekki hvernig aðrir haga sér eða hvernig aðrir eru til í að standa við bakið á mér. Ég sá þarna líka að ég hafði ekki verið hvorki auðveld né vitræn í hegðun og þar af leiðandi hefur það örugglega ekki verið auðvelt að umgangast mig í gegn um þessa atburði en þegar allt kemur til alls þá er það ekki mitt að stjórna því hvernig aðrir haga sér eða bregðast við því hver verður að fá að fljúga eins og hann er fiðraður til.

# Ég ætla að beina orkunni minni að því að finna aðrar leiðir til að vinna með það sem gerðist en það að endurtaka í huganum aftur og aftur sárindin og svekkelsin sem ég varð fyrir. Ég er sú sem stjórna mínu lífi og minni líðan og ætla ekki að gefa það frá mér til einhvers annars eða atburðar sem hefur átt sér stað.

# Ég ætla að vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum degi, gremja, biturleiki og reiði stendur í vegi fyrir því svo ég skipti því út fyrir þakklæti, kærleika og gleði.

Þegar ég tala um að skipta út gremju, biturleika og reiði fyrir þakklæti, kærleika og gleði þá er ég ekki að tala um að ég hafi á augabragði orðið þakklát, kærleiksrík og glöð með það sem gerðist eða gagnvart þeim sem mér finnst hafa brugðist mér. Ekki aldeilis, þetta tók mig tíma og ég á seint eftir að finna fyrir þakklæti, kærleika eða gleði þegar ég hugsa til baka til þessara atburða ég á ekki von á því að það gerist nokkurn tíma. Ég fór að horfa í kring um mig, sjá hvað það er margt sem ég á og er í umhverfinu mínu sem ég get verið þakklát fyrir, hvað ég get gefið kærleika á margvíslegan hátt og hvað það er ótrúlega margt út um allt sem er ástæða til að gleðjast yfir. Áður en ég gerði mér grein fyrir því þá var ekki eins sárt og vont að horfa til baka, gremjan, biturleikinn og reiðin hafði minnkað til muna og ég fann ekki fyrir eins miklu svekkelsi eða sárindum og áður…

Ég hafði látið af gremjunni, biturleikanum og reiðinni - ég hafði fyrirgefið…

Eins mikið og ég hata klisjur þá verð ég að láta eina fylgja þessari færslu því hún er að reynast mér sönn og rétt, það fylgir frelsi í því að fyrirgefa og ég er sannfærð um að ég hafi ekki gert neinum meiri greiða með því að fyrirgefa þetta en sjálfri mér..

“ Að fyrirgefa er eins og að gefa fanga frelsi og uppgötva að fanginn ert þú sjálfur.”
Lewis B. Smedes