Hvað felst í því að biðjast fyrirgefningar og hvenær ættum við að biðjast fyrirgefningar? Hvernig eigum við að biðjast fyrirgefningar?

Orðið fyrirgefning virðist þýða uppgjöf saka, sem í raun tónar við það að með því að fyrirgefa eitthvað sem hefur verið gert á minn hlut er ég að láta af gremju, biturleika og reiði gagnvart því sem gerðist en ég fæ það ekki til að tóna við það að með því að fyrirgefa sé ég ekki að viðurkenna eða leggja blessun mína á það sem á undan hafði gengið. Ef ég gef einhverjum upp sakir er ég þá ekki að seigja hann saklausan? Getur verði að beinþýðing orðsins sé önnur en trúarleg eða samfélagsleg þýðing þess?

Orðið fyrirgefning, það að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar hefur orðið mörgum fræðimönnum tilefni til margrar lærðra greina og ritgerða, það er meira að seigja til stofnun um fyrirgefningu hvað þá meira. Ég ætla að hugleiða um fyrirgefningarbeiðni út frá mínum skilningi og mínum tilfinningum og reynslu frekar en að gera tilraun til að vera of fræðileg á þann hátt að hægt sé að vitna í það sem ég skrifa…

Að biðjast fyrirgefningar, það virðist vera eitthvað við það að biðjast fyrirgefningar sem er svakalega erfitt og sumum nánast ómögulegt. Ég persónulega á ekki erfitt með það og hef oft sagt að mér finnist ekkert mál að biðjast fyrirgefningar þegar þess gerist þörf en mér finnst hins vegar meira mál að á undan fyrirgefningarbeiðninni geri ég alltaf eitthvað sem verðskuldar það að ég biðjist fyrirgefningar. Undanfari fyrirgefningarbeiðnar er alltaf sá að ég hef gert eitthvað rangt eða eitthvað á hlut einhvers sem ég sé eftir og iðrast…

Getur verið að mörgum þyki erfitt og nánast ómögulegt að biðjast fyrirgefningar vegna þess að með því þá eru þeir að viðurkenna að hafa gert rangt? Getur verið að þeim finnist að ef þeir biðjist fyrirgefningar séu þeir minni manneskjur fyrir vikið eða veikari?

Um daginn gerðist það að mér fannst mér nákominn bregðast mér harkalega, honum fannst það líka og endaði það sem hann hafði að seigja með orðinu “fyrirgefðu”. Ég brást hin versta við og lét hann vita að hann hefði ekki rétt á því að seigja þetta orð við mig þar sem hann vissi hvað hann væri að bregðast mér og ætlaði að standa við fyrirætlanir sínar og hann gerði það…

Þarna fannst mér hann ekki hafa rétt á því að biðja mig um að fyrirgefa sér þar sem hann vissi hvað hann væri að gera og vissi að það kæmi sér illa fyrir mig. Í reiði minni og sárindum sá ég ekki að hann bar fram fyrirgefningarbeiðnina fullur iðrunar, eftirsjár og sjálfsásakana vitandi að hann gæti ekki verið mér það sem ég ætlaði honum, ég heyrði bara orðin sem hann sagði en ekki hvernig hann sagði þau, ég heyrði ekki á þessari stundu að hann sá verulega eftir því hvernig væri komið fyrir okkur og veit núna að hann hefði gefið margt merkilegra en annað til þess að hlutirnir væru á annan veg en þeir voru. Hver var ég að ákveða og dæma að hann hefði ekki rétt á því að biðjast fyrirgefningar bara vegna þess að það hentaði mér ekki á þessari stundu…

Það skiptir máli hvernig þú biðst fyrirgefningar, það skiptir öllu máli hvernig þú ferð að því að biðjast fyrirgefningar…

Mér finnst að þegar ég fer og biðst fyrirgefningar á einhverju sem ég hef gert á hlut einhvers þá verða nokkur atriði að vera til staðar…

# Ég sé eftir því sem ég gerði.
# Ég viðurkenni að ég hafi gert rangt og ber ábyrgð á því.
# Ég vil að þú vitir að ég sjái eftir því hvað ég gerði og að ég viti að ég hafi haft rangt fyrir mér.
# Ég vil bæta fyrir það sem ég gerði ef ég mögulega get.
# Ég kem til með að gera mitt besta til að þetta gerist ekki aftur.

Hvernig fer ég að því að biðjast fyrirgefningar?
Ég sá einhvers staðar haft eftir mér vitrari manneskju að fyrirgefningarbeiðni ætti ekki að bera fram með afsökun fyrir hegðun eða gjörðunum sem urðu til þess að það varð ástæða fyrir því að biðjast fyrirgefningar. Réttmæt orð því ef ég kæmi til þín og segði við þig “viltu fyrirgefa mér hvað ég var leiðinleg og snubbótt við þig í gær en þú varst bara svo fjandi leiðinlegur” þá er ekki mikið varið í þá fyrirgefningarbeiðni. Líkurnar á því að þú fyrirgæfir mér eru ekki miklar og að öllum líkindum hef ég sært þig enn meira en áður. Hvað þú varst leiðinlegur getur verið útskýring á því hvernig ég hagaði mér en enganvegin afsökun fyrir hegðun minni…

Fyrirgefningarbeiðni finnst mér eiga að bera fram án afsökunar og með iðrun og eftirsjá, ég er að seigja þér að mér þyki leiðinlegt hvernig ég kom fram við þig og þarf ekki að afsaka mig eða útskýra afhverju vegna þess að ég ber ábyrgð á minni hegðun, mínum viðbrögðum en ekki þú…

Hvers á að vænta eftir fyrirgefningarbeiðni?
Ég er enn ekki búin að ákveða hvort mér finnist það ósanngjarnt eða ekki en þegar ég er búin að biðjast fyrirgefningar og lýsa yfir iðrun og eftirsjá þá er ég í raun búin að gera það sem ég get til að gera hlutina betri hjá þeim sem ég hef gert rangt gagnvart og það er ekki á mínum höndum hvað manneskjan gerir við það. Í rauninni er ég bæði búin að létta af minni samvisku og um leið kasta ábyrgðinni yfir á þann sem ég gerði rangt gagnvart, hvað hann gerir við þetta er ekki eitthvað sem ég get stjórnað eða á að stjórna. Það eina sem ég get gert eftir að hafa beðist fyrirgefningar er að gefa þeim sem ég gerði rangt gagnvart tíma til að skoða hlutina og ákveða fyrir sig hvað hann ætlar að gera í þeim…

Að geta beðist fyrirgefningar er ekki merki um veikleika eða að þú sért minni manneskja fyrir vikið að mínu mati, mér finnst sá sem getur viðurkennt að hann hafi haft rangt fyrir sér eða hafi gert rangt og sýni vilja til að breyta, bæta og laga það mörgum mönnum meiri…

Ef ég ætla að vera besta mögulega útgáfan af sjálfri mér þá geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér eða geri alltaf rétt gagnvart öðrum en ég ætla að gera mitt besta og stundum er það besta sem ég get gert eftir glappaskot og kjánaskap að viðurkenna það og sýna vilja til að breyta, bæta og laga, ekki bara þeirra vegna sem hafa orðið fyrir glappaskotunum og kjánaskapnum af minni hendi heldur einnig sjálfrar mín vegna…

Það getur verið að fyrir þá sem ég hef komið illa við sé það besta sem gerist að ég viðurkenni mitt og biðjist fyrirgefningar, er það of mikils til ætlast?

Fyrirgefning, orð sem við heyrum svo oft en leiðum sjaldnast huga að því hvað það þýðir, hvað felst í því að fyrirgefa og afhverju ættum við að fyrirgefa? Hvað felst í því að biðjast fyrirgefningar og hvenær ættum við að biðjast fyrirgefningar?

Við lærum það snemma sem krakkar að þegar við höfum gert eitthvað rangt þá eigum við að biðjast fyrirgefningar, seigja “fyrirgefðu” við þann sem við gerðum rangt gagnvart og þá verður allt gott aftur. Okkur er líka kennt að þegar einhver gerir eitthvað á okkar hlut og kemur til okkar og seigir “fyrirgefðu” við okkur þá eigum við að fyrirgefa það sem var gert og allt verður gott aftur, þetta er því miður ekki svona einfalt þegar við erum orðin stór…

Ég er búin að vera að eiga við leiðindar atvik sem kom upp án þess að ég bæði um eða sóttist eftir, stundum gerast vondir hlutir án þess að ég fái mikið við ráðið og í hita augnabliksins gerist það stundum að fólk bregst rangt við. Bæði ég sjálf og fólkið sem stendur í kring um mig, við erum jú bara mannleg og þegar mikið liggur við á miklum hraða er erfitt að gera sér grein fyrir stöðunni og bregðast alltaf rétt við. Afleiðingar þessa atviks hafa verið vægast sagt svakalegar, erfiðast hefur verið að eiga við tilfinningalegar afleiðingar þess en þar hefur mér fundist þeir sem standa mér nærst hafa brugðist mér svakalega og það hefur verið mér verulega erfitt og ég hef setið sorry, svekkt og verulega sár yfir því…

Núna þegar allt virðist fallið í ljúfa löð hef ég haft tíma til að skoða hlutina í raunsærra ljósi en áður og þá sé ég að það er ekki allt eins og mér fannst í fyrstu. Jú, ég ætla ekki að gera lítið úr því að á vissan hátt var það svo að þeir sem stóðu mér nærst hafa ekki staðið sig eins og ég hefði viljað og svo sannarlega ekki eins og þau vildu en hvaða væntingar gerði ég? Getur verið að ég hafi gert of miklar væntingar til þeirra, getur verið að ég hafi staðið og ætlast til of mikils? Getur ekki verið að vegna þess að ég ætlaðist til of mikils að þess vegna hafi ég orðið svona sorry, svekkt og sár?

Hvernig hætti ég að vera sorry, svekkt og sár?

Með því að fyrirgefa, en hvernig fer ég að því og hvað þýðir það?

Eftir því sem ég kemst næst þá þýðir það að fyrirgefa að láta af gremju, biturleika og reiði gagnvart þeim sem ég tel að hafi gert eitthvað á hlut minn, þeim sem ég tel að hafi ekki staðið sig gangvart mér eða gagnvart atburði sem ég á erfitt með að hafi gerst. Ég er nú ekki vitlausari en svo að ég geri mér fulla grein fyrir því að gremja, biturleiki og reiði er eitthvað sem eykur ekki á lífsgæði mín að burðast með og ég vil ekki bera þessi frændsystkyni með mér hvert sem ég fer. En hvernig læt ég af gremju, biturleika og reiði, hvernig sleppi ég þeim á þann hátt að þau hafi ekki áhrif á daglegt líf mitt?

Hvað gerist ef ég sleppi gremjunni, biturleikanum og reiðinni? Er ég þá ekki búin að samþykkja það sem gerðist, veita viðurkenningu á því að allt sé í himnalagi og hafi engar afleiðingar á einn eða neinn hátt?

Fyrirgefning er ekki samþykki á því sem átti sér stað, þó ég fyrirgefi þá er ég ekki heldur að gleyma því sem gerðist. Það er ekki samasem merki á milli þess að fyrirgefa og eða sætta sig við hlutina og fyrirgefningu fylgir heldur ekki minnisleysi. Fyrirgefning er leið til að sleppa, láta af óþæginlegum og vondum tilfinningum sem við burðumst með eftir það sem gerðist og leið til að halda áfram með lífið á jákvæðari og betri hátt…

Ég var búin eins og áður seigir að sitja sorry, svekkt og sár, upptekin af því hvað mér hafði fundist hafa verið gert á minn hlut og það hafði haft verulega áhrif á daglega líðan mína og líf því ég hafði verið að finna fyrir þessu á hverjum degi. Þetta hafði haft áhrif á hegðun mína gagnvart öðrum og virtist hafa eitrað mun meira en ég gerði mér grein fyrir í kring um mig, jafnvel til þeirra sem áttu ekki skilið að finna fyrir því hvernig mér leið gagnvart þessu, þeirra sem komu hvergi nálægt þessu á einn eða neinn hátt. Lífð mitt virtist gegnsýrt af gremju, biturleika og reiði gagnvart þessu og var farið að éta upp meira en minna. Það stefndi í veruleg óefni og ég sá fyrir mér að ég yrði gömul bitur kona með mött augu og eftirsjá, ekki alveg það sem ég ætla mér þegar ég verð stór…

Hvernig átti ég að bregðast við þessu, hvernig átti ég að sleppa þessum vondu tilfinningum sem gegnsýrðu lífið mitt og finna aftur fyrir því hvað það er gott og gaman að vera ég?

Með því að sleppa, hætta að ríghalda í sársauka þess sem hafði gerst og fyrirgefa, ég gæti hvort eð er ekki breytt fortíðinni með gremju, biturleika eða reiði en ég get stjórnað því hvernig mér ætlar að líða í framtíðinni, ég sá að það eina sem ég gat gert var að fyrirgefa, sleppa vondu tilfinningunum til þess að hleypa jákvæðari tilfinningum að…

Ég er búin að fyrirgefa þeim sem stóðu mér nærst í þessum atburðum sem ég talaði um að ofan, ég er búin að sleppa gremjunni, biturleikanum og reiðinni og farin að finna aftur fyrir því hvað er gott og gaman að vera ég. Ég er búin að finna það sem ég laggði til hliðar af sjálfri mér til að halda í gremju, biturleika og reiði og það er ótrúlega gott. Það var ekki auðvelt, svo sannarlega ekki en það var heldur ekki eins erfitt og ég átti von á. Fyrirgefning er ferli, ég tók ákvörðun um að fyrirgefa og leitaði leiða til þess að mér tækist það…

Þetta er leiðin sem ég fór:

# Ég skoðaði hvað það var sem gerðist, hvað ég gerði, hvað þeir sem mér fannst hafa gert á hlut minn gerðu og hvernig það hefði haft áhrif á lífið mitt og líðan. Ákvað út frá þeirri skoðun að ég ætla ekki að vera gröm, bitur eða reið að eilífu amen vegna þessa, ætlaði ekki að láta þetta ekki skemma fyrir mér eða hafa neikvæð áhrif á daglegt líf mitt það sem eftir er.

# Ég sá að líðan mín stafaði meira af því að ég var sorry, svekkt og sár en því sem gerðist, líðan mín var tilkomin vegna særðra tilfinninga meira en þeirra atburða sem áttu sér stað og með þá vitneskju settist ég niður og skoðaði hvað það var sem olli því að það gerðist.

# Ég gerði mér grein fyrir því að í þessu tilfelli hafði ég greinilega gert mér of miklar væntingar til þeirra sem stóðu mér nærst, ég stjórna því ekki hvernig aðrir haga sér eða hvernig aðrir eru til í að standa við bakið á mér. Ég sá þarna líka að ég hafði ekki verið hvorki auðveld né vitræn í hegðun og þar af leiðandi hefur það örugglega ekki verið auðvelt að umgangast mig í gegn um þessa atburði en þegar allt kemur til alls þá er það ekki mitt að stjórna því hvernig aðrir haga sér eða bregðast við því hver verður að fá að fljúga eins og hann er fiðraður til.

# Ég ætla að beina orkunni minni að því að finna aðrar leiðir til að vinna með það sem gerðist en það að endurtaka í huganum aftur og aftur sárindin og svekkelsin sem ég varð fyrir. Ég er sú sem stjórna mínu lífi og minni líðan og ætla ekki að gefa það frá mér til einhvers annars eða atburðar sem hefur átt sér stað.

# Ég ætla að vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum degi, gremja, biturleiki og reiði stendur í vegi fyrir því svo ég skipti því út fyrir þakklæti, kærleika og gleði.

Þegar ég tala um að skipta út gremju, biturleika og reiði fyrir þakklæti, kærleika og gleði þá er ég ekki að tala um að ég hafi á augabragði orðið þakklát, kærleiksrík og glöð með það sem gerðist eða gagnvart þeim sem mér finnst hafa brugðist mér. Ekki aldeilis, þetta tók mig tíma og ég á seint eftir að finna fyrir þakklæti, kærleika eða gleði þegar ég hugsa til baka til þessara atburða ég á ekki von á því að það gerist nokkurn tíma. Ég fór að horfa í kring um mig, sjá hvað það er margt sem ég á og er í umhverfinu mínu sem ég get verið þakklát fyrir, hvað ég get gefið kærleika á margvíslegan hátt og hvað það er ótrúlega margt út um allt sem er ástæða til að gleðjast yfir. Áður en ég gerði mér grein fyrir því þá var ekki eins sárt og vont að horfa til baka, gremjan, biturleikinn og reiðin hafði minnkað til muna og ég fann ekki fyrir eins miklu svekkelsi eða sárindum og áður…

Ég hafði látið af gremjunni, biturleikanum og reiðinni - ég hafði fyrirgefið…

Eins mikið og ég hata klisjur þá verð ég að láta eina fylgja þessari færslu því hún er að reynast mér sönn og rétt, það fylgir frelsi í því að fyrirgefa og ég er sannfærð um að ég hafi ekki gert neinum meiri greiða með því að fyrirgefa þetta en sjálfri mér..

“ Að fyrirgefa er eins og að gefa fanga frelsi og uppgötva að fanginn ert þú sjálfur.”
Lewis B. Smedes

Eins kjánalegt og það er þá er það yfirleitt svo að við sjáum ekki að það sé þörf á því að slíta sambandi eða enda samskiptum við einhvern fyrr en það er orðið deginum ljósara, við reynum yfirleitt að halda í fólkið sem okkur þykir vænt um út í hið óendanlega hvort sem það er ástin í lífinu okkar eða vinir okkar og félagar sem okkur þykir vænt um. Stundum gerum við okkur grein fyrir því vitrænt af því að við ættum að koma okkur úr þessum samskiptum en þrátt fyrir það höldum við að því er virðist endalaust áfram sama hvað það virðist kosta okkur.

Ég er persónulega ný hætt samskiptum við bestasta besta vin minn og félaga sem mér þykir ákaflega vænt um og veit að honum þykir líka vænt um mig. Við vorum löngu hætt að vera gott fyrir hvort annað og það hafði ýmislegt gengið á áður en okkur þótti fullreynt og gerðum okkur grein fyrir því að þetta var ekki að ganga fyrir hvorugt okkar. Við höfðum reynt eftir fremsta megni að halda samskiptunum okkar gangandi því það var svo að hvorugu okkar langaði að hætta að umgangast hitt. Við duttum alltaf í sama farið aftur og aftur hvað sem við gerðum, að vera ekki gott fyrir hvort annað. Hvoru okkar það var að kenna veit ég ekki, það skiptir heldur ekki öllu máli því það myndi ekki breyta því að bestasti besti vinur minn er mér horfinn hvort sem ég finni hverjum eða hverju það sé að kenna eða ekki. Ég gat ekki hugsað mér að halda áfram án þess að hafa hann í lífinu mínu en undir endan var það orðið þannig að það var erfiðara að hafa hann en ekki. Ég var honum einnig erfiðari en enginn bara svo það komi skýrt fram að þá var ég honum sjaldnast auðveld en þrátt fyrir hvað við vorum hvort öðru erfið þá þótti okkur verulega vænt um hvort annað. Ég held að við höfum reynt að halda í hvort annað allt of lengi, hefðum átt að láta leiðir okkar skiljast fyrir þónokkuð löngu síðan en það er eitthvað svo erfitt og ógnvænlegt við það að sleppa höndunum af vinum sínum, hvað þá bestasta besta vini sem ég hef nokkurn tíma átt en við hefðum getað sparað okkur töluverð læti, leiðindi og sárindi ef við hefðum haft vit á því að skiljast að fyrr.

Þegar ég lít til baka og fer yfir söguna okkar og þegar ég horfi til vina minna og félaga sem standa eða hafa staðið í sömu sporum þá sé ég að það er ótrúlega algengt að fólk á verulega erfitt með að ganga í burtu frá samböndum hvort sem það eru ástar- eða vinarsambönd og halda áfram án frekari samskipta.

Sannleikurinn er sár:
Stundum er það sem er satt og rétt sárara en tárum taki og algerlega á skjön við það sem við viljum og okkur langar svo ofur heitt. Vegna þess hvað það er sárt að sjá hlutina eins og þeir eru beinum við blinda auganu að raunveruleikanum og höldum áfram að rembast eins og rjúpan við staurinn að láta hlutina ganga upp þó það sé í raun bara að gera okkur illt verra. Sumar vinkonur mínar hafa tekið aftur og aftur saman við fyrrverandi sína hversu mikið sem þeir hafa farið illa með þær eða haldið framhjá þeim áður (þetta á líka alveg við um stráka þó ég þekki ekki dæmi um það). Þær eiga auðveldar með að trúa því að nú verði loks breytingar til batnaðar hjá þeim en að sambandið þeirra sé kærastanum ekki eins mikils virði og þær vilja og ætla að trúa.

Annar aðilinn er að gefa frá sér óljós og misvísandi skilaboð:
Ég hef bæði lent í því og horft upp á vinkonur mínar eiga góða vini en þær vilja og vonast eftir meira en bara vináttu. Óljós og misvísandi skilaboð frá hinum aðilanum gera það að verkum að halda að fljótlega verði þeim að óskum sínum þó það sé alls ekki það sem hann ætlar sér.

Við höldum að við eigum aldrei eftir að finna neinn eins og hann:
Ég held að mörg okkar sem hanga lengur í samböndum eða samskiptum en við ættum að gera, gerum það vegna þess að við erum hrædd við að við munum ekki finna aðra manneskju til að verja framtíðinni með. Hræðslan við að vera ein/n gerir það að verkum að við höngum endalaust áfram þó við ættum í raun að vera löngu farin.

Við erum hrædd við það sem gerist næst ef við sleppum/höldum áfram:
Við erum hrædd við það sem breytingarnar myndu hafa í för með sér, höldum okkur við það sem við þekkjum því það er þó ákveðið öryggi í því. Hvað myndi gerast ef við slepptum og héldum áfram? Hvernig verður lífið mitt þá?
Thich Nhat Hanh komst vel að orði þegar hann sagði “Við höldum okkur frekar við þjáningar sem við þekkjum en sársauka sem við þekkjum ekki”

Hver sem ástæðan er fyrir því að við ríghöldum í samband hvort sem það er ástar-, vinarsamband sem gera okkur lítin sem engan greiða þá til lengri tíma litið er okkur betra að beina ekki blinda auganu að því. Það getur verið sárt að sjá hvernig málin standa en það hlýtur þó að vera betra að vera upplýstur og geta brugðist við kringumstæðunum en að halda áfram í veikri von um að allt breytist, bætist og lagist. Ef við höldum fast í samband sem ætti að hafa runnið sitt skeið í von um að það verði allt aftur gott þá erum við föst í fortíðinni, föst í því að vilja að allt verði eins og áður, horfandi til baka með söknuði í stað þess að horfa björtum augum fram á vegin.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að velta upp hérna, sum eiga meira við ástar- heldur en vinarsambönd en flest þeirra eiga við bæði (því nota ég orðið makker meira en maki) hvenær er gott orðið gott, hvenær á að sleppa takinu og halda áfram? Það er ótrúlega mikið um að fólk sé að halda í sambönd sem það ætti með réttu að sleppa takinu af bæði sjálfs síns og makkersins vegna.

# Þegar þú lifir meira í fortíðinni en nútíðinni.
Dvelurðu mikið við það að rifja upp skemmtileg og hamingjusöm atvik úr fortíð sambandsins til að finna fyrir gleði og góðum tilfinningum? Notarðu minningarnar til þess að hvetja þig til að halda út og halda áfram? Ef svo er þá er það tákn um að núverandi samband er ekki eins og þú villt hafa það. Þú verður að muna og gera þér grein fyrir því að samskiptin eru við persónu sem er í nútíðinni, ekki fortíðinni. Minningar ættu að vera minningar, ekki ástæða fyrir því að halda áfram samskitpum við einhvern. Ákvörðun þín um hvort haldið skal áfram eða hætt ætti að vera byggð á núverandi tilfinningum til hans, raunverulegri stöðu sambandsins og framtíðinni sem þú sérð með honum en ekki því sem gerðist einu sinni í fortíðinni.

# Þegar sambandið, samskiptin færa þér meiri sársauka en gleði.
Stundum eigum við það til að vera blinduð af hamingju fortíðarinnar á þann hátt að við setjum til hliðar alla óhamingjuna og sársaukan sem það hefur fært okkur. Ef samskiptin eru á þann hátt að þú finnur fyrir pirru, sárindum, æsingi eða óhamingju oftar en ekki þá er alveg ástæða til að skoða hvort þetta sé rétt fyrir þig.

#Þegar hann ætlast til þess að þú breytist.
Æðsta form ástar er skilyrðislaus. Makkerinn þinn ætti ekki að ætlast til þess að þú breytir þér nema það sé vegna þinnar velferðar (s.s. hættir að reykja eða stundir heilbrigðari lífshætti). Ef það er eitthvað í fari þínu eða við þig sem ætlast er til þess að þú breytir þá skaltu hugsa málið vandlega því oftar en ekki þá snýst málið ekki um þig, ekki heldur um breytingarnar sjálfar heldur er ákveðin stjórnun í gangi sem á að öllum líkindum eftir að halda áfram hvort sem þú verðir við óskunum um breytingar eða ekki.

# Þegar þú ert kyrr í sambandi, samskiptum og ætlast til þess að hann breytist.
Ofangreinda á jafn vel við þig og makkerinn þinn. Ef þú ætlast til þess að makkerinn breyti sér í samræmi við þínar óskir frekar en að viðurkenna hann eins og hann er þá ertu á verulega röngum stað. Jafnvel þó þú fengir þínu fram þá mundi fljótlega eitthvað annað koma í ljós sem þú villt að breytist og þú verður aldrei fullkomlega sátt við hvernig hanner og á endanum yrði hann skugginn af þér sífellt að reyna að gera þér til geðs.

#Þegar þú réttlætir gjörðir hans fyrir sjálfri þér.
Ef þú finnur fyrir því að þú leitar leiða til að réttlæta eða afsaka gjörðir makkersins gagnvart þér svo þér líði betur þá þýðir það að eitthvað hefur hann gert sem þér finnst óþæginlegt eða vont og þú finnur fyrir þörf fyrir því að útskýra óþægindin sem það olli þér í burtu. Hættan sem þessu fylgir er sú að útskýringarnar sem þú gefur sjálfri þér eru oftast byggðar á tilfinningalegri þörf fyrir því að réttlæta gjörðirnar svo þér líði betur og því sérð þú ekki alltaf hvort þær eigi við rök að styðjast eða ekki. Á endanum er það alltaf svo að það sem hann gerir hefur hærra en það sem hann seigir.

# Þegar hann framkallar tilfinningalegan/líkamlegan/andlegan sársauka/ofbeldi.
Ef þú verður fyrir líkamlegu eða andlegu ofbeldi af hans/hennar hálfu skaltu forða þér hið snarasta, tilfinningalegt ofbeldi er hins vegar snúnara að sjá. Margir virðast horfa framhjá tilfinningalegum sársauka vegna þess að hann er ósýnilegur, ef þú hunsar hann þá er hann ekki til staðar. Tilfinningalegur sársauki er sár engu að síður, ef ekki verri en líkamlegur því tilfinningalegu sárin gróa oft erfiðlega og seint. Ef þú veðrur fyrir endurteknum sársauka af hálfu makkersins þá ættir þú verulega og virkilega að íhuga hvort það sé ekki betur hætt en heima setið því það er ekki þess virði að sitja kyrr undir sí endurteknu ofbeldi af neinni tegund.

# Þegar sama málið kemur upp aftur og aftur jafnvel þó það sé búið að reyna að taka á því.
Einu sinni getur verið tilviljun, tvisvar og þú gætir gefið því annan séns en allt er þá er þrennt er og algerlega fullreynt í fjórða. Finnst þér eins og þú sért að endurtaka hlutina aftur og aftur? Ertu að lenda í sömu aðstæðunum, sömu útkomunni, sömu samtölunum aftur og aftur sama hvað þú reynir að gera til að fá aðra útkomu? Ef svo er þá ættir þú kannski að hugleiða það hvort sambandið sé ekki komið á endastöð. Þú getur haldið áfram endalaust en verður þá að vera búin undir það að fá sömu útkomuna einu sinni enn, að þetta sé eins langt og þið komist og þetta verði framtíðin ef þú heldur áfram.

#Þegar makkerinn leggur lítið sem ekkert til sambandsins, samskiptanna.
Öll sambönd, hvort sem það eru ástar- eða vinarsambönd eru samskipti tveggja aðila, báðir aðilarnir verða að leggja sitt af mörkum til þess að sambandið gangi. Ef þú ert stöðugt ein um að halda við sambandinu án þess að makkerinn taki mikinn eða neinn þátt í því þá kemur það til með að gera þig uppgefna fyrr en seinna. Ef þetta ójafnvægi er viðvarandi þá verður þú stöðugt að gefa meira og meira bara til að halda sambandinu fljótandi. Sambönd, hvort heldur ástar- eða vinasambönd ganga út á það að gefa og þiggja í báðar áttir, ef þú sérð ein um vinnuna ertu að vinna tveggja manna verk og hætta er á að þú týnir sjálfri þér svolítið fyrir vikið. Ertu tilbúin að standa í því alla ævina þína að vinna tveggja manna vinnu til að halda sambandinu lifandi? Ertu til í að velja þér makker, hvort sem um ræðir ástina þína í lífinu eða bestasta besta vinn þinn sem lætur þig um alla vinnuna á meðan hann fær að fljóta með án þess að þurfa að hafa fyrir neinu nema að þyggja það sem þú hefur fram að færa án þess að vera til í að leggja sitt af mörkum?

# Þegar grunngildin og skoðanir/trú eru ósamræmanlegar.
Sama hvort um ræðir ástar- eða vinasambönd þá verða grunngildin að vera svipuð eða samræmanleg, allt annað getur stangast á en grunngildin verða að vera á þann hátt að annað geti skilið og tekið tillit til hins og omvent því við miðum okkur og skilgreinum sem persónur út frá grunngildunum okkar.
Ef grunngildin eru ósamræmanleg, stangast á er líklegt að þið verðið oft ósammála og gangið á hlut hvors annars á einhvern hátt og þá skiptir ekki máli þó allar aðrar skoðanir og sýnir séu svipaðar eða eins ef grunngildin eru ósamræmanleg. Ef þú gefur afslátt eða lætur af grunngildunum þínum ertu að gefa afslátt eða láta af hluta af sjálfri þér en til þess að geta verið heil í samskiptum við aðra manneskju verður þú sjálf að vera heil.
Stundum getur það gerst að grunngildin séu svipuð í upphafi sambands en breytist með tímanum, fólk þroskast mismunandi og verður fyrir mismunandi reynslu sem hefur áhrif þar á, kannski breytist annar aðilinn eða báðir. Breytingin getur orðið til þess að grunngildin sem voru eitt sinn samræmanleg verði ósamræmanleg og passi ekki saman, að þið náið ekki saman eins og áður. Þá er ástæða til að setjast niður og skoða hvað næsta skref ætti að vera.

#Þegar samband, samskipti halda aftur af þér, halda aftur af einstaklingsþroska þínum.
Samband samanstendur af tveimur einstaklingum sem þroskast og þróast eftir því hvernig einstaklingarnir þroskast og þróast. Stundum þroskast báðir einstaklingarnir í svipaða átt á sama hraða og stundum standa þeir báðir í stað. Það er líka til í dæminu að annar aðilinn þroskist hraðar en hinn eða báðir í mismunandi áttir.
Þegar þetta gerist þá hefur þú tvo kosti í stöðunni; að breyta taktinum í sambandinu til að hann passi í þessa nýju þróun eða breyta sjálfum þér til að halda taktinum sem er í sambandinu. Mér finnst (það er ekki víst að öllum finnist eins og mér) að það sé einna mikilvægast í lífinu að vera trúr sjálfum sér og grunngildunum sínum, þá verður þú að taka ákvörðun um hvað þú villt eða hentar þér. Samskipti sem hindra þroska þinn, er það eitthvað sem þú villt? Ef þú ert í þeirri stöðu þá er líklegt að makkerinn sé að eiga við það sama eða sé í svipaðri stöðu. Samband ætti að ýta undir persónulegan þroska einstaklinganna, þú ættir að ýta undir persónulegan þroska hans og hann undir pérsónulegan þroska þinn. Sértu í samskiptum við einhvern sem hindrar þroska þinn eða þú hans skaltu hugsa málin vandlega, hvort það sé ykkur báðum fyrir bestu.

# Þegar þú heldur áfram, bíður og vonar að hlutirnir verði betri.
Þetta er svipað fyrsta # nema hér er verið að tala um framtíðina, á sama hátt og þú lifir ekki í fortíðinni þá lifir þú heldur ekki í framtíðinni, það er núið sem þú lifir og hrærist í. Þú getur vonað að framtíðin verið betri og ef það er það eina sem heldur þér í sambandinu þá er það ekki byggt á traustum grunni. Sú framtíð sem þú vonast eftir gæti orðið að veruleika en líkurnar á því eru minni en meiri. Það er hæpið að byggja sterkt og gott samband á því einu að von um að framtíðin verði betri en það sem er í gangi núna.

# Þegar ykkur líður ekki eins gagnvart hvoru öðru.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Ef tilfinningarnar eru ekki lengur til staðar þá er tími til að sleppa og halda áfram. Margir halda áfram í sambandi janfvel löngu eftir að tilfinningarnar hafa breyst, kannski er það vegna þess að það er komin þæginleg rútína á lífið og tilveruna.
Samband án gagnkvæmra tilfinninga er eins og líkami án hjartsláttar, það vantar sálina og lífið í það.
Ef tilfinningarnar eru horfnar sem þú hafðir til maka þíns ertu hvorki að gera honum greiða né sjálfri þér, í raun ertu að gera minna úr honum en efni standa til því hann á það skilið eins og allir aðrir að eiga maka sem ber tilfinningar til hans.
Hafi maki þinn ekki sömu tilfinningar til þín og í upphafi er engin ástæða til að ætla honum að dvelja lengur í sambandinu þó tilfinningarnar þínar hafi ekki breyst því það gerir ykkur báðum óleik og skapar óhamingju ykkar beggja þegar upp er staðið.
Gerðu þér grein fyrir því ef þú ert í þessari stöðu að sönn ást á ekki hamingjusaman endi, því sönn ást endar ekki. Að sleppa, leyfa honum að halda áfram er ein leið til að seigja “ég elska þig” því þó þú elskir hann þá er ekki víst að þú eigir að vera með honum til æviloka, sérstaklega ekki ef tilfinningin er ekki gagnkvæm.

Að slíta sambandi, hætta samskiptum, að sleppa og halda áfram er oft skelfileg tilhugsun, það getur samt sem áður verið það besta sem hægt er að gera í stöðunni…